Aðalfundi lokið

Magnús formaður setti fundinn og því næst var Sverrir kosinn fundarstjóri. Formaður flutti skýrslu stjórnar og gjaldkeri kynnti reikninga félagsins sem voru samþykktir. Stjórn lagði til óbreytt félagsgjald og var það samþykkt. Sverrir Gunnlaugsson bauð sig fram til gjaldkera og var það samþykkt. Guðni V. Sveinsson lét af störfum sem vallarstjóri eftir áratuga starf sem hann fær kærar þakkir fyrir. Gunnar M. Magnússon gaf kost á sér sem vallarstjóra og hlaut einróma kosningu. Engar lagabreytingar lágu fyrir en undir önnur mál var rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir á árinu.

Eftir að hafa gætt sér á tveimur svakalegum brauðtertum frá Björk hans Guðjóns var 2016 vídeóannáll FMS frumsýndur og skemmtu viðstaddir sér yfir honum næstu klukkutímana!

Þetta er í tíunda sinn sem annáll FMS birtist svo nú er hægt að stikla á stóru í flugmódelsögunni yfir síðasta áratuginn.

Aðalfundur FMS, 18. janúar kl.19:30

Flugmódelfélag Suðurnesja boðar til aðalfundar miðvikudaginn 18. janúar nk. í húsnæði Vinnueftirlitsins að Bíldshöfða 16, 110 Reykjavík og hefst hann stundvíslega kl.19:30. Lásahúsið og Bílasmiðurinn(blikkljós í glugga) eru í þessu sama húsnæði en húsið er á milli Tómstundahússins og American Style.

Að venju er um pappírslausan fund að ræða en fundargögn verða send út á næstu dögum svo félagsmenn hafa tækifæri á að prenta þau út og taka með sér ef þeir þess kjósa.

Gengið er inn í portinu fyrir ofan húsið, upp um eina hæð inn á skrifstofu Vinnueftirlitsins og þar er salurinn á hægri hönd. Húsinu er læst rétt áður en fundur hefst svo vinsamlegast verið tímanlega á ferðinni en ef ykkur seinkar þá getið þið hringt í síma 863 3479 og við opnum fyrir ykkur.

Staðsetning: https://ja.is/kort/?d=hashid%3AwwVbP&x=362763&y=405546&z=11&type=map

Fyrir hönd stjórnar,
Sverrir Gunnlaugsson
Gjaldkeri FMS