Flotflugkoma FMS tókst vel

Það var ennþá dálítið hvasst um átta leytið svo menn voru ekkert að flýta sér í samsetningu flotvélanna heldur fengu sér kaffisopa og horfðu á Lúlla þeyta Extra um loftin blágrá. En það lægði þó þegar á leið og þá var ekkert að vanbúnaði og eini þátttakandinn, Maggi með Beaver, skellti sér niður að Seltjörn ásamt her aðstoðarmanna sem fá bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Eftir gangsetningu var ekki eftir neinu að bíða svo Beaver-inn renndi sér í kalt vatnið og hóf siglingu kvöldsins. Eftir stutta en hraða siglingu hóf hann sig til flugs og tók til við að flögra nokkra hringi yfir Seltjörn. Þetta var svo endurtekið nokkrum sinnum þangað til allir voru sáttir við árangurinn.

Þá dróg Pétur fram Sigurð VE-15, 0,007 brúttótonna bát sem hafði verið lengdur í Garðabænum hér um árið og fór nokkra túra á honum um Seltjörn. Ekkert kom þó í netin og ekki urðu eftirlitsmenn varir við neitt brottkast.

Áhugasamir geta séð fleiri myndir á flugmódelspjallinu.